top of page

Ábyrgur læknir og ábyrgur hjúkrunarfræðingur

Pistill með örnámskeiði.

Öryggi á sjúkrahúsi er fyrst og fremst fólgið í að þekkja sinn ábyrga lækni og ábyrga hjúkrunarfræðing.

Þeir eru skráðir í sjúkraskránna þína um leið og þú leggst inn á sjúkrahús. Þetta eru þeir aðilar sem stýra þjónustunni við þig á meðan þú liggur inni. Þetta á við um flest öll sjúkrahús í heiminum ekki bara á Íslandi. Ég nota þó LSH hér sem dæmi enda flest okkar sem þekkjum þá stofnun. Þessir ábyrgu starfsmenn eru að jafnaði í fullri vinnu og oftast á dagvöktum virka daga þótt það sé ekki algilt.

Þetta er svo sjálfsagt í starfsemi sjúkrahúsa og menntun heilbrigðisstarfsmanna að sérstakar leiðbeiningar um þetta eru ekki sjáanlegar á vefsíðu t.d. LSH eða landlæknis.

Heilbrigðisstarfsmenn læra það fljótt að virða þessa stöður og treysta á að svona sé verklagið. Það er sjaldgæft að tekið sé fram fyrir hendur ábyrgum starfsmanni varðandi ákvarðanir í meðferð sjúklinga. Engu að síður eru þeir sem eru á vakt ábyrgir fyrir umönnun og því miður hefur það komið fyrir starfsmenn hafa tekið vald ábyrgs starfsmanns svo alvarlega að þeir hafa skýlt sér á bakvið það og ekki gripið inn í þegar sjúklingi versnar. Það má náttúrulega ekki gerast. Ef við verðum vör við það þá getum við gripi til fleiri spurninga sem ég fer yfir í næsta pistli og myndbandi.

Fáðu upplýsingar á blaði um nöfn þeirra og hvernig þú nærð sambandi við þau um leið og þú leggst inn. Ef þér finnst gott að fá mynd þá er allt í lagi að biðja um hana. Þegar maður er veikur hefur maður ekki fulla orku, minni né athygli og því nauðsynlegt að hafa svona mikilvægar upplýsingar hjá sér.


Þetta er teymið þitt og einnig mikilvægt að þú fáir einn náin aðstandanda til að vera með í þessu teymi og sá getur hjálpað þér þegar á þarf að halda. Stundum þarf maður sinn eigin umboðsmann sem maður treystir og þekkir sem jafnvel hjálpar manni að taka stórar ákvarðanir. Þá er oft gott að fá lánaða dómgreind hjá sínu fólki.

Þessir tveir ábyrgu stafsmenn eiga að hjálpa þér að:

  1. Greina heilsufarsleg vandamál.

  2. Velja með þér þá meðferð sem hentar þér best.

  3. Fylgja því eftir að meðferð sé veitt og fylgjast með framgangi hennar.

  4. Veita þér upplýsingar daglega.

  5. Skrá í sjúkraskránna þín daglega.

  6. Ef þú flyst á milli deilda eða ábyrgi starfsmaðurinn fer í frí þá áttu að fá upplýsingar um það og hver tekur við.

  7. Fylgjast með eftir útskrift eða tryggja eftirfylgni hjá öðrum eftir útskrift.

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 23. september 2020 kemur fram að maður lést eftir að hann fluttist milli deilda og ábyrgi læknirinn fór í sumarfrí.⁠ Þá var enginn til að fylgjast með daglega og tryggja að sjúklingurinn fengi þá meðferð sem þurfti. Í dómnum kemur einnig fram að aðrir verkferlar brugðust hjá þeim sem voru á vakt. Þetta var talið vítavert gáleysi sem höfundur þessa pistils er alveg sammála enda er þetta grunnþekking heilbrigðisstarfsmanna.


Stattu á þínu og gefðu skýrt til kynna að þú vilt og þurfir þessar upplýsingar og láttu þína nánustu hafa þær líka. Á LSH eiga nöfn þeirra sem sjá um umönnun þína þá vaktina (hjúkrunarfræðingur og sjúkraliðar) einnig að vera sýnileg á töflu inni hjá þér. Þau nöfn breytast líklega þrisvar á sólahring.


Við verðum að taka þátt í að móta öryggismenninguna einfaldlega með þessari skýru spurningu.

Hver er minn ábyrgi læknir og hver er minn ábyrgi hjúkrunarfræðingur?

Comments


Commenting has been turned off.
bottom of page