top of page

Daginn eftir

Kvöldið sem Jóel lést 24. febrúar 2001 héldum við tómhent heim af barnadeildinni. Þetta kvöld er í móðu enda ég búin að vaka meira og minna í þrjá sólarhringa. Minningin sem situr í mér enn í dag er hve fætur mínir voru þungir. Að skilja hann eftir og fara bara heim var nokkuð sem hvorki hugurinn né hjartað gat meðtekið og þungt fyrir allan líkamann að bera. Þegar heim var komið lá beinast við að leggjast í rúmið en ég gat það ekki. Fannst ég verða að fara út og finna Jóel. Ég fór því út í göngutúr og reyndi að finna hann á stjörnubjörtum himninum. Engin stjarna var nógu skær né bjó tunglið yfir nægu ljósmagni og hlýju til að minna mig á hann. Einhvern tíma lagðist ég þó á koddann.

Daginn eftir vaknaði ég við að mér fannst Jóel vera að rumska. Auðvitað fór ég á fætur og ætlaði að taka hann upp, lyfti sænginni hans en þá var hann ekki þar. Ó, já, hann er uppi á spítala hugsaði ég og lagðist aftur í rúmið.

Dagurinn leið í móðu; blóm og kveðjur fylltu borðstofuborðið og þeir hugrökkustu komu í heimsókn án þess að vita hvernig þeir ættu að hegða sér. Það var dýrmætt og meiri huggun en orð fá lýst.

Ég man eftir að hafa setið í sófanum með vinahjónum en man ekki um hvað við vorum að tala. Ég var líklega ekki að veita því athygli en man að ég var að hugsa um hvernig ég ætti að fara að því að lifa þetta af. Ég vissi að lífi mínu og okkar var ógnað. Ég sagði allt í einu. „Vitið´i það, af tvennu illu held ég að það sé skárra að lifa en deyja.“ Eftir smáþögn skelltu þau uppúr því þau áttuðu sig á alvarleikanum sem fólst í þessari þversagnakenndu yfirlýsingu minni. Þarna tók ég meðvitaða ákvörðun um að lifa þetta af þótt mér þætti það ekki góður kostur á þessu augnabliki. Ég vildi lifa, ekki bara fyrir mig heldur fyrir stóra strákinn minn. Þessa ákvörðun hef ég oft tekið á þeim 19 árum sem liðin eru því freistingin að láta sig hverfa úr sársaukanum er sterk og oftast eina sjáanlega lausnin. Myrkrið er svo kolbikasvart að dauðinn virðist leiðin. það dagar á ný og ég vil ekki missa af því.

Eftir að ég flutti til Spánar fyrir þremur árum geng ég oft niður á strönd sem er nánast í bakgarðinum hjá mér og þar nýt ég sólarupprásarinnar. Finn hvernig eldhnötturinn faðmar mig og nærir fyrir daginn. Þá veit ég að Jóel er ekki langt undan og jafnframt glaður yfir að sjá mig brosa.

Í morgun 25. febrúar 2020 missti ég af sólarupprásinni, vaknaði of seint mér til mikilla vonbrigða. Það kveikti á þessum minningum. Á morgun kemur nýr dagur og nýtt tækifæri. Listin er að taka ekki vonbrigði gærdagsins með inn í daginn í dag og njóta hverrar mínútu. Það er þess virði að lifa. Myndir eru af sólarupprásinni 24. febrúar 2020.

237 views0 comments

Comments


bottom of page