top of page

Endurtekin mistök, tveir drengir látinir


Í Kaliforníu árið 2005 lést Gabriel, 20 mánaða drengur á Stanford- barnaspítalanum. Stanford er eitt virtasta háskólasjúkrahús í heimi. En röð atvika, þar á meðal röng læknisfræðileg greining á tveimur spítölum urðu til þess að hann lést. Móðir hans Leilani Schweitzer lýsir reynslu sinni í fyrirlestri á Ted.com sem sjá má hér fyrir ofan. Hún hefur skrifað pistla um atvikið og lýsir þessu einnig í viðtali á fréttastöðinni CTV news í Kanada (linkur). Þegar nánar er leitað eftir þessari sögu hennar kemur í ljós að Gabriel og Jóel minn eiga margt sameiginlegt. Báðir greindust með fæðingargalla á meðgöngu, báðir með vatnshöfuð, báðir fengu ventil á fyrstu vikum lífsins og báðir létu lífið eftir að ventillinn stíflaðist. Þeir fengu einnig sömu röngu greininguna, iðrakveisa í stað stíflaðs ventils. Í báðum tilfellum hringdu viðvörunarbjöllur ekki, þó ekki sömu bjöllurnar sem klikkuðu. Í tilfelli Gabriels var slökkt á öllum viðvörunarbjöllum sírita sem drengurinn var tengdur við, hann gaf ekkert merki þegar hann fór í hjartastopp.

En þegar Jóel lést var slökkt á allri athygli starfsmanna þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar mínar um versnandi ástand. Samskonar atvik en í tilfelli Gabriels voru viðbrögðin eftir andlátið ekki á neinn hátt sambærileg og viðbrögðin á Landsspítanum þegar Jóel lést, þar ríkir ennþá dauða þögn. Mistökin á Stanford voru rannsökuð ítarlega. Heiðarleiki og samúð mættu foreldrunum og gagnsæið haft að leiðarljósi. Mistökin voru meðal annars rakin til framleiðenda síritans. Í kjölfarið var gefin út viðvörun um hættuna til allra sjúkrahúsa í Bandaríkjunum með samskonar sírita í notkun. Framleiðandi breytti síðan tækinu. Móðir Gabriels var hvött til að segja sögu sína og hún starfar nú sem ráðgjafi í öryggisteymi Stanford sjúkrahússins ásamt því að vinna að listsköpun sinni. Samvinna hennar við spítalann felst í að koma í veg fyrir að þetta endurtæki sig og aðstoða þá sem lenda í sambærilegum atvikum.

Það liðu fjögur ár á milli dauða drengjanna, sem hefði mátt koma í veg fyrir.


Skrifað 15. júlí 2019 Auðbjörg Reynisóttdir

Vefsíða Leilani https://leilanis.typepad.com

Myndband um list hennar sem er innblásin af reynslu hennar https://www.youtube.com/watch?v=Q2h1hU21MVY

400 views0 comments

Comentarios


Los comentarios se han desactivado.
bottom of page