top of page

Hjúkrun á gjörgæsludeild

Updated: Jan 4, 2021

Eftirfarandi er kafli úr hluta tvö úr bókinni Stærri en banvæn mistök.

Dramatískar stundir eru fóður fyrir húmorinn. Eitt atvik átti sér stað á gjörgæslunni sem gott er að sjá í spaugilegu ljósi mitt í allri alvörunni.

Föðuramma Jóels var gædd einstökum hæfileikum sem hægt er að lýsa á eftirfarandi hátt: Þú ert með skrifborðið fullt af mikilvægum pappírum, öllum raðað í skipulega röð svo ekkert ruglist. Á fallegum sumardegi stendurðu upp, opnar gluggann og einmitt þá gengur einhver inn um dyrnar. Við það tekur gusturinn allt á borðinu og endurraðar því eftir eigin geðþótta um allt herbergið og jafnvel víðar. Allt upp í loft og mikilvæg yfirsýn hefur glatast. Þannig áhrif hafði þessi einstaka persóna á umhverfi sitt alveg fyrirhafnarlaust.

Amman gengur inn á gjörgæsluna um hádegið föstudaginn 23. febrúar. Hún verður þess vör að ég er ósofin og metur það forgangsatriði sem strax þurfi að leysa úr. Auðvitað gengur hún í málið (enda góðhjörtuð kona) og leggur til að ég fari heim að leggja mig. Þegar ég tek ekki undir hugmyndina hækkar hún boðið og býður mér að fara heim til sín að leggja mig. Hennar heimili er örlítið nær spítalanum en rúmið mitt á Seltjarnarnesi. Eins og ég sagði þá var það listgrein hennar að fá allt umhverfið í loft upp. Hjúkrunarfræðingur á deildinni tekur því vel undir þessar hugmyndir hennar. En við það var komin pressa á mig að fara að leggja mig heima hjá tengdó. Ég gat engan veginn séð að það mundi ganga. Hver getur lagt sig við þessar aðstæður?

Þessi minning er hreint ótrúleg og kallar fram bros enn í dag þótt mér hafi ekki verið hlátur í hug þegar þetta gerðist. Enn og aftur voru hjúkrunarfræðingar ekki með á nótunum og ég get ekki ímyndað mér hvernig þeim datt í hug að pressa á móður að yfirgefa deyjandi barn. Skömmu síðar fengum við sérherbergi og ég gat lagt mig í rúminu hjá Jóel. Það var allt sem þurfti.

Bókin er væntanleg í enda mánaðarins og hægt að kaupa bókina í forsölu ásamt aukaefni á Karolina Fund


63 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page