top of page

Hugleiðing í heimsfaraldri

Updated: Apr 9, 2020

Það er sérstök upplifun að vera að leggja lokahönd á handrit að bók um öryggi sjúklinga þegar heimurinn snýst allt í einu um það málefni. Sennilega er þetta ástand gott tækifæri fyrir okkur að læra um hvað öryggi sjúklinga snýst um. Eins og margir sjúkdómar þá leggst COVID-19 verst á þá sem eru viðkvæmir eða með aðra undirliggjandi sjúkdóma. Allt lítur út fyrir að þeir sem eru hraustir fyrir þurfi ekki að hafa miklar áhyggjur af áhrifum sjúkdómsins ef þeir smitast. Það er þó hvorki algilt né öruggt. Í nágrenni mínu varð fílhraustur maður alvarlega veikur en er nú á batavegi eftir innlögn á sjúkrahús. Þetta tekur á sama hver það er sem veikist og óttinn við að fólkið okkar veikist heldur mörgum okkar frá samskiptum. Viðhorf okkar, þarf að snúast um virðingu fyrir þeim sem veikir eru fyrir og skapa aðstæður í heilbrigðisþjónustunni til að ráða við álagið. Nú skiptir ekki máli hvað við erum heldur hver við erum. Læknir, lögfræðingur, prestur, iðnaðarmaður, listamaður eða hvaða titil annan sem við berum sem vísar til færni og þekkingar skiptir engu máli, heldur hvort við höfum þolinmæðina, virðinguna og hugrekkið til að gera það sem gera þarf. Dyggðir og persónueiginleikar skipta hér miklu meira máli en titlar.

Heilbrigðisstarfsfólk almennt er nú í hávegum haft og fær lof og þakkir daglega. Hvatningu og stuðning úr öllum áttum. Svo mikill er meðbyrinn að það jaðrar við dýrkun. Þetta var ekki eitt af því sem ég sá fyrir mér þegar ég ákvað að læra hjúkrunarfræði og ég held að fæstir hafi verið að sækjast eftir slíkri upphefð í því námi. Launin voru heldur ekki það sem réði úrslitum um þessa ákvörðun. Ákvörðunin átti sér dýpri rætur í persónuleikanum um það hver ég er og vil vera.

Hvað sjá börnin fyrir sér?

Ég velti fyrir mér hvort þessi mikla og jákvæða athygli veki upp löngun hjá ungum börnum í dag til að leggja fyrir sig starf á heilbrigðissviði. Börnin eru oft spurð hvað þau ætla sér að verða þegar þau verða stór en sjaldan spurð að því hver þau vilja verða. Hvaða fyrirmyndir sjá þau fyrir sér til að verða góðar manneskjur. Hvernig hagar sú manneskja sér í heimsfaraldri? Gerir hún sitt besta með það sem hún hefur eða vælir hún, fer eins langt og hún kemst á meðan það kemst ekki upp. Ég kom sjálfri mér á óvart einmitt í þessum línudansi. Að fara eins langt og ég komst, bara til þess að ég næði mínum markmiðum. Ég átti erfitt með að sætta mig við að gefa þau eftir. Nú þegar ég er búin að fá tvö tækifæri hjá lögreglunni á Spáni veit ég að það þriðja verður dýrkeypt ef ég hlusta ekki betur og virði þær takmarkanir sem mér eru settar. Ég iðraðast og bæti ráð mitt.

Málefnið um öryggi sjúklinga er mér hugleikið af sérstökum ástæðum og ég veit að alvarleg atvik í starfi heilbrigðisstarfsmanna verða ávallt til staðar og það þarf hugrekki til að halda áfram eftir að hafa verið valdur að slíku að ég tali ekki um þá sem verða fyrir heilsutjóni eftir alvarleg atvik. Það gleymist alveg í þessari upphefð sem nú ríkir í samfélaginu. Er það hugrekkið sem heilbrigðisstarfsmenn sýna í þessari heimskreppu sem heillar börnin eða er það kannski búningarnir? Auðvelt er að reka augun í fréttir af mistökum á sama tíma og heilbrigðisstarfsmenn eru hylltir. Nýlega kom frétt um 42 ára gamla konu sem lést skömmu eftir útskrift af bráðamóttöku og 7. apríl birtist dómur Landsréttar í máli manns sem varð fyrir varanlegu líkamstjóni vegna mistaka árið 2012.⁠ Sá dómur er fróðlegur enda í fyrsta sinn sem ég sé dómstól leggja sönnunarábyrgð á Landspítalann en héraðsdómur hafði áður metið það svo að fullyrðingar sjúklingsins væru með öllu ósannaðar. Sjúkraskrá mannsins bar þess merki að skráning væri ófullnægjandi og þótt það standi ekki í dómi Landréttar þá blasir við að spítalinn sýnir engan áhuga á að læra af mistökunum og verja aðra fyrir sambærilegu tjóni. Það er það alvarlega í mínum augum.

Hver viljum við vera þegar við gerum mistök? Er auðveldara að takast á við mistök sem íþróttamaður en heilbrigðisstarfsmaður? Hver ætla ég að vera og hvernig ætla ég að reynast þeim sem veikir eru fyrir? Ætla ég að fara eins langt og ég kemst upp með eða sýna fullan áhuga á að þessi plága verði kaffærð með minni einlægu aðstoð? Það er menningin sem ræður hversu örugg við erum, öryggismenningin er ekki bara verkefni heilbrigðisstarfsmanna heldur okkar allra. Við þurfum öll að taka þátt í þessari menningarbyltingu sem nú á sér stað. Gefðu þér tíma til að leggja rækt við þig og þá manneskju sem þú vilt vera, núna og þegar þetta ástand er gengið yfir. Við megum ekki detta í sama farið og láta sem ekkert hafi gerst. Verum fyrirmyndir barnanna um hver þau vilja vera þegar þau verða stór.

Alvarleg atvik eru mannleg

Ég mæli almennt ekki með skilyrðislausri hlýðni. Það á alltaf að hugleiða af hverju ætla ég að hlýða og hver vil ég vera, jafnvel undir heraga. Við þurfum að muna að heilbrigðisstarfsmenn eru mannlegir eins og við hin en jafnframt passa að þeir hafi bæði svigrúm og náð eftir mistökin. Ég vona að heilbrigðisstarfsmenn muni taka gagnrýni vel eftir að faraldurinn er yfirstaðinn af því að fólk sér hvað er hægt að gera betur. Einmitt það sem við öll viljum og þess vegna stöndum við saman núna. Það kemur tækifæri fyrir dýrlingana að stíga sjálfir af stalli í auðmýkt.

Við þurfum einnig að gefa okkur sjálfum svigrúm til að læra núna og þegar faraldurinn er genginn yfir. Við þurfum vonandi ekki annað svona tækifæri til þess. Nú er gott að taka til í sálartetrinu og breyta sjálfum sér til frambúðar. Hver vilt þú vera?

118 views0 comments

Commenti


bottom of page