top of page

III. Lífið án Jóels

Úr 13. kafla. Stóri bróðir og sorgin


Bróðurkærleikur lifir enn, þótt Jóel sé farinn.

Við kistulagninguna voru bílar og bangsar lagðir til hinstu hvílu hjá Jóel. Þá mundi Jóel hafa eitthvað til að minna sig á stóra bróður. Eitthvað sem hann gæti leikið sér með á himnum.

Hvað ef það ómögulega tækist

Einn daginn stuttu eftir jarðaförina stóð ég í eldhúsinu að vaska upp og ganga frá eftir matinn. Heyri ég þá dynki innan úr stofu. Ég fer að athuga málið. Þetta er Sindri, hann stendur á miðju stofugólfi, hoppar upp og niður af öllum lífs og sálar kröftum. Prílar upp á skammel og hoppar niður um leið og hann teygir sig eins langt upp og hann getur, aftur og aftur. Þú getur eflaust séð þetta fyrir þér. Ég spurði hvað hann væri að gera. Hann svarar strax. „Ég ætla að ná í Jóel“. Hvað getur maður gert í þessari stöðu annað en að hoppa með honum? Það gerðum við um stund þangað til og lögðumst vonsvikinn í sófann. En við reyndum og það er það sem skiptir máli. Við vildum fá hann aftur, vildum hafa hann hér og viljum það enn. Það er allt hægt þegar maður er að verða fjögurra ára. Sá sem ekki reynir hann lærir heldur ekkert. Möguleikinn á að þetta mundi heppnast væri ekki að til nema af því maður reynir. Einn daginn tekst það. Allavega þegar við yfirgefum þessa jarðvist þá náum við honum aftur og það er allt sem við viljum. Við töpum aldrei á því að reyna, við annað hvort sigrum eða lærum.

Einu sinni átti ég lítinn bróðir

Dagbókin rifjar upp margt gott sem nærir mig núna. Nokkrar slíkar frásagnir eru um samskiptin við Sindra og hvernig hann tókst á við sorgina við að missa litla bróður.

Þriðjudaginn 12. febrúar 2002 vorum við Sindri (hann þá tæplega 5 ára) á göngu, líklega á leið heim úr leikskólanum. Við göngum fram á tvær konur og önnur þeirra var með barnavagn. Sindri stoppar og segir: „Einu sinni átti ég lítinn bróðir en svo bara dó hann“. Konan svarar fallega án þess að fipast: Já, þá ert þú stóri bróðir“ og stoltur svarar Sindri með stóru jái. Þarna hafði hann þörf fyrir að segja frá litla bróður og líklega kveikti barnavagninn þessa þörf og fékk svona falleg viðbrögð frá bláókunnugri konu. Kannski vaknaði líka söknuður hjá Sindra af því að Jóel kom ekki með að sækja hann í leikskólann. En hann er ennþá stóri bróðir sem á lítinn bróður í hjarta sér.

Nokkrum dögum áður hafði ég skrifaði í dagbókina: „Sindri var leiður yfir því í dag að Jóel kemur ekki í afmælið hans.“


Börnin ræða dauðann

Og enn og aftur skrifa ég í dagbókina, febrúar 2002 er Sindri að leik með tveimur jafnöldrum sínum heima og þau ræða um dauðann. Eitt þeirra segist hrætt við dauðann en Sindri minn svarar: „Iss, þá fer ég bara að leika við Jóel.“ Nú koma í hug mér orð Páls postula: „Dauði hvar er sigur þinn? Dauði hvar er broddur þinn?“ (1 Kor. 15:55).


Sögurnar um Jóel og félaga

Maður stoppar mig úti á götu og segir: „Sæl, ég ætlaði einmitt að hafa samband við þig. Ertu til í að koma með mér hér inn á skrifstofu.“ Þar settist ég og hann dró upp bók, áritaði hana með orðunum „Jóel er frá þér komin.“ Bókin heitir Svalasta sjöan og er fyrsta bók Þorgríms Þráinssonar um Jóel og félaga.⁠1 Hugmyndina að nafni aðalpersónunnar fékk hann þegar ég sagði Dale Carnegie-hópnum sögur af Jóel. Það getur enginn ímyndað sér áhrifin af þessari velgjörð við okkur. Sindri var einmitt að byrja að læra að lesa og að sjálfsögðu eignaðist hann og las með athygli allar sögurnar um Jóel og félaga. Þær eru einnig allar áritaðar af höfundinum. Þorgrímur heimsótti skólann hans og stóri bróðir Jóels hlustaði stoltur á hann lesa fyrir nemendur úr bókunum, vitandi hvaðan aðalpersónan fékk nafnið sitt.


Bílprófið

Á 16 ára afmælisdegi Jóels (2015) sagði Sindri (þá 18 ára). „Næsta ár hefði orðið vesen, þá hefði ég þurft að lána honum bílinn minn.“ Eðaleintak af BMW var þarna í eigu Sindra. Hann sá eðlilega fyrir sér að þeir hefðu farið saman í bíltúr á 17 ára afmælisdaginn hans Jóels 2016 og ekki málið að lána honum dótið sitt áfram. Stóri bróðir þekkir skyldur sínar þótt litli bróðir sé horfinn frá okkur.1 Þorgrímur Þráinsson, Svalasta sjöan, Andi, Reykjavík 2003.

72 views0 comments

Recent Posts

See All

Comentários


bottom of page