top of page

Sjúkraskráin - mitt öryggi

Mikil áhersla er lögð á notkun bílbelta enda sýna rannsóknir að þau draga verulega úr áverkum og fækka dauðsföllum eftir umferðarslys.

Svo rík áhersla er á notkun þessa

öryggistækis að sektir liggja við ef beltin eru ekki notuð. Slys verða víða í samfélaginu, og með ýmsum hætti er almenningur vakinn til vitundar um hætturnar og hvernig á að varast þær. Slysin gerast einnig inni á sjúkrahúsum og í allri heilbrigðisþjónustunni einmitt þar sem við síst búumst við þeim og sjaldan er

um það rætt. Við heyrum helst um þessi slys þegar fólk stígur fram opinberlega og lýsir áhrifum alvarlegra atvika sem hafa skaðað einstakling eða valdið andláti. Hér ætla ég að gera stutta grein fyrir helsta öryggistækinu þegar kemur að því að tryggja öryggi sjúklinga en það er sjúkraskráin.


Eins fullkomið og kostur er

Tilgangur laga um sjúkraskrá er að setja reglur um sjúkraskrár þannig að unnt sé að veita sjúklingum eins fullkomna heilbrigðisþjónustu og kostur er á hverjum tíma og tryggja um leið vernd sjúkraskrárupplýsinga.

Í fyrsta kafla 16. grein og fjórða kafla 15. grein laga um sjúkraskrá⁠ er gert ráð fyrir að sjúklingur geti tilnefnt umboðsmann sinn. Þetta ákvæði laganna er afar mikilvægt þegar um alvarleg veikindi er að ræða og sjúklingur á erfitt eða jafnvel er alveg ófær um að gæta sinna réttinda sjálfur.


Sjúkraskráin er verkfæri sem starfsmenn sjúkrastofnana nota til þess að allir hafi sömu upplýsingar er varðar hvern sjúkling fyrir sig og hann fái samræmda gæða þjónustu eins og lögin gera ráð fyrir. Til þess þarf að skrá rétt og af virðingu við sjúkling. Það er alltaf sjúklingurinn sem velur meðferð og þjónustu eftir leiðbeiningum og upplýsingum frá starfsmanni, en ekki starfsmaðurinn og það á að koma glöggt fram í sjúkraskránni. Söfnun gagna um heilsufar landsmanna er svo annar stór þáttur í skráningu í sjúkraskrá. Þá er tilgangurinn að safna gögnum til vísindarannsókna en það er allt annað og kemur öryggi sjúklinga hér og nú lítið við. Ég tel það beinlínis varasamt að fara nánar út í umræðu um notkun vísinda á þessum gögnum. Ekki er langt síðan að stórfyrirtæki í lyfjaiðnaði horfðu hýru auga til Íslands þegar ný bóluefni komu á markað en sem betur fer var sá gjörningur sleginn út af borðinu allavega í þetta sinn að hluta.

Ég vil fyrst og fremst vekja sjúklinga og aðstandendur til vitundar um mikilvægi sjúkraskrárinnar og upplýsa um hvernig á að nota hana til að tryggja öryggi sitt.


Djúpt í leiðbeiningum fagráðs

Í leiðbeiningum fagráðs um öryggi sjúklinga hjá Embætti landlæknis⁠2 kemur sjúkraskráin fyrir, en þá fyrst og fremst sem verkfæri starfsmanna og skylda stjórnenda að hafa hana samtengda og aðgengilega starfsmönnum.

Ekkert er minnst á mikilvægi þess að sjúklingar lesi sína sjúkraskrá. Þannig er eftirlitið með sjúkraskránni takmarkað. Á Norðurlöndum er sjúklingum afhent sjúkraskráin við útskrift af sjúkrahúsi. Ætlast er til þess að þeir lesi hana og séu þannig þátttakendur í eigin öryggi. Starfsmenn eru þeir einu sem geta skráð í kerfið og líklega mjög meðvitaðir um gildi þess fyrir starfsemina og sjúklinginn en gleyma því að það er sjúklingurinn sem á gögnin og ætti að vera þátttakandi í allri skráningu. Til dæmis ætti aldrei að skrá sjúkdómsgreiningu án þess að sjúklingurinn sé samþykkur því og meðvitaður um gildi þess fyrir þjónustu við hann í framtíðinni. Sama gildir um meðferð sem sjúklingur velur við tilteknum sjúkdómi. Hann á að geta lesið sig til um hvaða meðferðir voru í boði og hvað hann valdi sjálfur. Síðan á hann að geta séð hvernig meðferðin sem hann valdi virkaði.


Átta einföld ráð (einföld en samt flókin)

Landspítali hefur gert myndband⁠3 og upplýsingaspjald (að erlendri fyrirmynd) er kallast Örugg dvöl á sjúkrahúsi - 8 einföld ráð.

Þar er ekkert minnst á sjúkraskrá og hvernig hún skiptir máli. Margt af því sem kemur fram í myndbandinu byggir á rannsóknum á atvikum og hvernig sjúklingur getur tekið þátt í að fyrirbyggja byltur sem er eitt af algengustu atvikunum. Jafnframt er sjúklingur hvattur til að hafa ekki áhyggjur af lyfjum, sem hljómar undarlega því þar eru einmitt algengustu mistökin gerð. Ég tel að þetta myndband sýni mjög takmarkað hvað sjúklingar geta gert til að tryggja öryggi sitt sem ég lýsi hér á eftir. Í raun eru þarna nokkrar þversagnir og atriði sem veikburða fólk á erfitt með að framkvæma sérstaklega þegar legið er á sjúkrahúsi og sumt er alfarið á ábyrgð starfsmanna en ekki sjúklinga. Til dæmis eru sjúklingar í myndbandinu hvattir ítrekað til að tala við starfsfólk deildar um ýmislegt en ekki minnst á að tveir tilgreindir starfsmenn hafa sérstaka stöðu gagnvart sjúklingi til að fylgja honum eftir en það eru ábyrgur læknir og ábyrgur hjúkrunarfræðingur. Þeir eiga að svara spurningum sjúklings varðandi meðferð hans og tryggja að sjúkraskráin innihaldi réttar upplýsingar í samráði við sjúkling. Þetta er verklag sjúkrahúsa um allan heim ekki bara á Íslandi. Sjúklingur ætti að spyrja um og fá nöfn þessara tveggja starfsmanna skrifuð niður hjá sér og fá upplýsingar um hvernig hann getur náð sambandi við þá (þetta er skráð í sjúkraskrá um leið og innlögn er skráð). Það á ekki að vera verkefni sjúklinga á sjúkrahúsi að tala við hinn og þennan um sín mál og hann á ekki að þurfa að finna út við hvern hann á að tala hverju sinni. Sama gildir um nánasta aðstandanda.


Rétt skráning

Í umræðu fjölmiðla um alvarleg atvik á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja kom fram að læknir hefði skráð sjúklinga í ótímabæra lífslokameðferð (skammstafað LLM í sjúkraskrá) en læknirinn hélt því fram að það hefði verið röng skráning (mistök við skráningu). Mistökin geta því verið á mörgum stigum þjónustunnar. Ekki bara við greiningu sjúkdóma, meðferð og eftirmeðferð heldur allstaðar þar sem manneskjan kemur við sögu. Veist þú hvaða meðferð þú ert að fá? Það er mikilvægt að sjúklingur eða umboðsmaður hans hafi aðgang að gögnum og geti farið fram á leiðréttingu ef á þarf að halda. Þar liggur öryggið og ekki á að bíða eftir þunglamalegri eftirlitsstofnun eins og Embætti landlæknis til að mæta á staðin. Virk þátttaka sjúklings er þess vegna grundvöllur að góðri þjónustu. Til þess þarf að hvetja sjúkling til að lesa og hafa skoðun á þeirri þjónustu sem hann fær með því að lesa sjúkraskrána sína, þekkja sínar sjúkdómsgreiningar, lesa sig til um hvað liggur að baki þeim og hvaða meðferð hann valdi við þeim sjúkdómi. Valmöguleikarnir eiga í raun að koma fram í sjúkraskránni ásamt vali sjúklings. Það er ekki á valdi læknis/hjúkrunarfræðings að skrá bara niðurstöður sínar og sínar ákvarðanir um meðferð. Það á að vera upplýst samþykki sjúklings hvað stendur um hann í sjúkraskránni og kemur skýrt fram í II. kafla laga um réttindi sjúklinga⁠.

Að fagfólk skrái sitt álit er svo allt annað mál og það er allt annað en ákvarðanir sjúklingsins um sitt eigið líf sem fagfólk á að virða sama hvaða skoðanir það hefur á vali sjúklingsins. Hafi sjúklingur ekki tök á að lesa sjálfur á að hvetja hann til að finna einhvern sem hann treystir til að gera það með sér / fyrir sig og standa þannig sterkur gagnvart valdi heilbrigðisstarfsmanna. Það er réttur sjúklinga og öryggi þeirra.

203 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page