Texti úr bókinni, kafli 6.
Þetta gerist á bráðmóttökunni eftir ítrekaðar kvartanir um versnandi ástans Jóels
Síðasti bjargvætturinn bregst
Bastían læknir veitir drengnum mínum ekki þá athygli sem ég vænti. Hann á að sjá strax, án þess að gera rannsókn að drengurinn er í lífshættulegu ástandi. Ekki er nokkur leið að vekja Jóel. Ég ætti kannski að prófa að hringja í 112?
Þessi læknir er kuldalegur og eins og útbrunninn. Hann er í nánu sambandi við skjáinn sinn eins og Tetris hjúkrunarfræðingurinn. Þetta samband hans við skjáinn er þó á faglegri nótum en engu að síður kemur það í veg fyrir að hann taki eftir ástandi drengsins. Er þetta kannski það sem átt er við þegar sagt er ,,Computer says NO “. Það er óhuggulega sárt.
Menn sem eiga ljón
Hvað skyldi fógetinn segja við þessu? Þar sem þeir eru frændur mundi sennilega ekkert gerast ef ég kæri málið til lögreglu. Eins og í Kardimommubænum mundi fógetinn segja:
,,Heyrðu nú pylsugerðarmaður. Hefur þú einhvertíma tekið fasta menn sem eiga ljón?“
Pylsugerðamaðurinn neitaði því auðvitað skilningsríkur og það geri ég líka. Maður virðir þá sem eiga ljón. Hefur hæg um sig og sýnir skilning þegar ekki er hægt að gera eitthvað strax.
Öndunarstopp
Vonlítil rölti ég hægum skrefum inn á deildina aftur. Hjúkrunarfræðingur kemur að mæla. Ég bendi henni á hvað öndun hans sé orðin skrítin eins og hann sé með ekka. Súrefnismettunin er innan eðlilegra marka. Hún fer. Þögnin tekur við á ný. Ég sé að Jóel er að blána upp og andar svo til ekkert. Ég efast stórlega um sjálfa mig, að ég sé að sjá það sem er að gerast. Ég opna dyrnar, segi kæfandi röddu eins hátt og ég get;
,,Hann er hættur að anda.“
Unga fólkið sem þarna stendur í hvítum sloppum á ganginum, líklega læknanemar, hrekkur við og hleypur af stað. Nú fór allt í gang. Í sjúkraskránni stendur að klukkan hafi verið 20.30.
Neyðarástand
Læknir A kemur fyrstur, úr næsta herbergi. Píptækið virkar greinilega og ég verð feginn að hann er ekki lengra í burtu. Það bætist hratt í hópinn, hjúkrunarfræðingar og fleiri læknar (neyðarteymið) fylltu herbergið. Ég kem mér fyrir út í horni, skelfingu lostin og skjálfandi, vil ekki vera fyrir. Sjálf hafði ég oft tekið þátt í svona aðstæðum sem hjúkrunarfræðingur á gjörgæslu og vissi að það skipti máli að hafa gott pláss. Læknir A kallar eftir niðurstöðu Bastíans. Já, ventillinn er stíflaður.
Menn sem eiga ljón
Hvað skyldi fógetinn segja við þessu? Þar sem þeir eru frændur mundi sennilega ekkert gerast ef ég kæri málið til lögreglu. Eins og í Kardimommubænum mundi fógetinn segja:
,,Heyrðu nú pylsugerðarmaður. Hefur þú einhvertíma tekið fasta menn sem eiga ljón?“
Pylsugerðamaðurinn neitaði því auðvitað skilningsríkur og það geri ég líka. Maður virðir þá sem eiga ljón. Hefur hæg um sig og sýnir skilning þegar ekki er hægt að gera eitthvað strax.
Bastían læknir
Klukkan er að verða hálf sjö þegar við erum kölluð í CT af höfði (tölvusneiðmynd / sónar). Mér léttir. Nú erum við að fara að hitta lækni sem sér örugglega hvað er að gerast. Biðin er á enda, hugsaði ég.
Á leiðinni eftir ganginum hitti ég gamlan vinnufélaga minn og við heilsumst innilega. Ég er við það að brotna, langar að gráta og segja: Hann er að deyja, geturðu hjálpað mér? En ég geri það ekki. Við höldum áfram okkar leið. Með eftirvæntingu og kökk í hálsinum geng ég með Jóel inn um dyrnar á röntgendeildinni og heilsa manninum við skjáinn (- sem rímar við ljáinn). Þetta er Bastían læknir.
Hann situr við skjáinn sinn og segir ,,Sett´ann bara þarna“ og bendir á skoðunarbekkinn fyrir framan sig án þess að lýta á okkur. Ég lyfti Jóel upp úr barnakerrunni. Hann er alveg máttlaus og sýnir engin viðbrögð við þessu brölti. Læknirinn byrjar að skoða, setur pinnann á höfuð hans (notar pinna skynjara / pinna). Færir hann fram og til baka, dreifir vel út gelinu án þess að Jóel sýni nokkur viðbrögð. Nú eru krampar augsýnilegir, hann krepptist saman í öxlunum en læknirinn er ekki að kippa sér upp við það. Í forvitni kíki ég á skjáinn en spyr einskis. Ég sé stóra svarta bletti á skjánum og get mér þess til að þetta séu vökvafylltu heilahólfin. Læknirinn dregur síðan rauðar línur milli punkta á skjánum eins og hann sé að teikna eitthvað upp eða mæla. Örvæntingin er að heltaka mig. Ég hætti að horfa og mæni á drenginn minn. Að lokum þurrkar hann gelið af kollinum og segir: ,,þið megið fara aftur inn“. Engin niðurstaða. Ekkert sem gefur tilefni til þess að vernda okkur fyrir því sem verða vildi nokkrum mínútum síðar.
Bastían og fjölskylda
Hann fær nafnið Basítan af því hann minnir mig á persónu í vinsælu barnaleikriti. Eftirá er hægt að virða sársaukafulla atburði fyrir sér í spaugilegu ljósi og finna hjartasárið gróa á ný, ná tökum á lífinu aftur. Það er gott að hlægja mitt í sársaukanum.
Bastian hlýtur að vera skyldur bæjarfógetanum Bastían. Hann er reyndar allt annað en blíður á manninn eins og segir í kvæðinu um fógetann. Þeir frændur virðast hafa sömu lífssýn gagnvart vandamálum. Í sögunni um Kardimommubæinn lýsir bæjarfógetinn því hvernig leysa skuli vandann sem pylsugerðarmaðurinn stóð frammi fyrir eftir ránið í búðinni hans. Pylsugerðarmaðurinn vildi láta taka ræningjana fasta strax. Fógetinn bað hann um að vera rólegan því allt þarf að koma í réttri röð: ,,Fyrst á að skrifa niður og svo þurfum við að hugsa málið vandlega.“
Í sögunni skrifar fógetinn skýrslu um atburðinn í bókina sína og lofar að hugsa málið á meðan hann gengur niður götuna. Ég vona að það sé á hreinu að þessi vísdómur á ekki við um aðstæður upp á líf og dauða. Engu að síður tekur þessi ágæti læknir tölvusneiðmynd af höfði Jóels. Hann skrifar í niðurstöðu sinni:
,, … er ekkert rými í basal cisternumm, yfirvofandi herniation?“
Það er reyndar spurningarmerki í lok niðurstöðunnar eins og hann sé ekki alveg viss um hvað er að gerast. En þetta þýðir að heilinn er við það að falla saman því að ekkert pláss er lengur innan höfuðkúpunnar. Þá er eina leiðin fyrir heilavefinn að gúlpast niður um opið sem hauskúpan hvílir á við mænuna. Slíkur var þrýstingurinn orðinn eftir ríkulega vökvagjöf. Latneska orðið hernia (ísl. haull) er einnig notað er yfir kviðslit og auðvelt að sjá það fyrir sér. Þegar Jóel fer í öndunarstopp klukkustund síðar er Bastían líklega enn að hugsa málið eftir skriftirnar (kannski fengið sér göngutúr líka). Hann ákveður þrátt fyrir stöðuna að láta mig um ábyrgðina þegar heilinn í syni mínum kramdist í mænuraufina. Hann tekur ekki einu sinni upp símann til að láta vakthafandi lækni (lækni A) vita af stöðunni. Að skrá í sjúkraskrá og hugsa djúpt á ekki að vera forgangsatriði þegar líf liggur við.
Hjúkrun á gjörgæslsudeild
Dramatískar stundir eru fóður fyrir húmorinn. Eitt atvik átti sér stað á gjörgæslunni sem gott er að sjá í spaugilegu ljósi mitt í allri alvörunni.
Föðuramma Jóels var gædd einstökum hæfileikum sem hægt er að lýsa svona; Þú ert með skrifborðið fullt af mikilvægum pappírum, öllum raðað í skipulega röð svo ekkert ruglist. Á fallegum sumardegi stendurðu upp, opnar gluggann og einmitt þá gengur einhver inn um dyrnar. Við það tekur gusturinn allt á borðinu og endurraðar því eftir eigin höfði um allt herbergið og jafnvel víðar. Allt upp í loft og mikilvæg yfirsýn hefur glatast. Þannig áhrif hafði þessi einstaka persóna á umhverfi sitt alveg fyrirhafnarlaust.
Amman gengur inn á gjörgæsluna um hádegið föstudaginn 23. febrúar. Hún verður þess vör að ég er ósofin og metur það forgangsatriði sem strax þurfi að leysa úr. Auðvitað gengur hún í málið (enda góðhjörtuð kona) og leggur til að ég fari heim að leggja mig. Þegar ég tek ekki undir hugmyndina hækkar hún boðið og býður mér að fara heim til sín að leggja mig. Hennar heimili er örlítið nær spítalanum en rúmið mitt á Seltjarnarnesi. Eins og ég sagði þá er það listgrein hennar að fá allt umhverfið í loft upp. Hjúkrunarfræðingur á deildinni tekur því vel undir þessar hugmyndir hennar. En við það var komin pressa á mig að fara að leggja mig heima hjá tengdó. Ég gat engann veginn séð að það virkaði. Hver getur lagt sig við þessar aðstæður?
Þessi minning er hreint ótrúleg og kallar fram bros á vör enn í dag þótt mér hafi ekki verið hlátur í hug þegar þetta gerðist. Enn og aftur voru hjúkrunarfræðingar ekki með á nótunum og ég get ekki ímyndað mér hvernig þeim datt í hug að pressa á móður að yfirgefa deyjandi barn. Skömmu síðar fengum við sérherbergi og ég gat lagt mig í rúminu hjá Jóel. Það var allt sem þurfti.