top of page

Hvernig rannsakar Embætti landlæknis alvarleg atvik?

Í fjórða hluta bókarinnar Stærri en banvæn mistök lýsi ég hvernig Embætti landlæknis fjallaði um fjórar kærur sem ég sendi inn árið 2010 og þá sérstaklega kvörtun vegna andláts Jóels.

Hvernig skyldi svona rannsókn ganga fyrir sig hjá embættinu?

Í 10. grein 2. málsgreinar laga um landlækni og lýðheilsu nr. 41 frá 27. mars 2007 með síðari breytingum stendur um alvarleg atvik í heilbrigðisþjónustu:

Landlæknir skal rannsaka slík mál til að finna á þeim skýringar og tryggja eftir því sem kostur er að slík atvik eigi sér ekki aftur stað. Veita skal landlækni þær upplýsingar og gögn sem hann telur nauðsynleg við rannsókn málsins. Landlæknir skal eiga greiðan aðgang að heilbrigðisstofnunum og starfsstofum heilbrigðisstarfsmanna í þágu rannsóknar.

Í þessu ákvæði felst sáttin sem þolendurnir sækjast eftir, fullvissan um að allt verði gert til að forða öðrum frá sömu þjáningum. Ef það er tryggt, þá er kominn tilgangur með þjáningunum. Það er allt sem þarf að sannfæra þolendur um. En hvaða aðferðum beitir embættið til að uppfylla þessa kröfu laganna?

Tilgangur rannsóknarinnar er skýr samkvæmt lögunum. Embættið hlýtur þar með að gefa opinberlega skýringar á atvikinu og krefja viðkomandi stofnun um að hún geri sjúklingi eða aðstandendum grein fyrir til hvaða ráðstafana hefur verið gripið svo að atvikið eigi sér ekki stað aftur. Síðan hlýtur embættið að kanna það hjá sjúklingnum eða aðstandendum hvort stofnunin hafi gert þetta. Það er alfarið á ábyrgð embættisins en ekki stofnunarinnar né sjúklingsins að fylgja málinu eftir svo það endurtaki sig ekki. Eða öllu heldur hélt ég að þannig væri það.

Önnur lög taka til alvarlegra atvika og miðast einnig að því að skapa sátt og ætlað að draga úr tjóni þolenda. Þetta eru lögin um sjúklingatryggingu nr. 111 frá 25. maí 2000. Þau tóku gildi 1. janúar 2001, 55 dögum áður en Jóel lést.

Það er alveg ljóst að sá sem verður fyrir alvarlegu áfalli er ekki fær um að sækja rétt sinn né berjast veikum mætti fyrir einhverju sem kallast réttlæti. Það eina sem þeir geta hugsað um er að halda lífi og halda fjölskyldu sinni saman þar sem mikið álag fylgir alvarlegum slysum.

Í bókinni skoða ég hvernig málin fjögur sem ég sendi inn voru rannsökuð, hverjar niðurstöðurnar voru og hvernig þau voru afgreidd. Í fimmta hluta bókarinnar ber ég það saman við hvernig málin eru unnin og kláruð í Noregi. Það kemur margt á óvart í samanburðinum. Á Karolina fund getur þú keypt bókina sem er væntanleg í lok febrúar ef allt gengur upp og fengið aðgang að öllum skjölum málanna.

68 views0 comments
bottom of page