top of page

Mig langar til

Fyrir ári síðan skrifaði Hlédís Sveinsdóttir opið bréf til Heilbrigðisstofnunar Vesturlands⁠. Þar lýsir hún baráttu sinni fyrir mannlegum viðbrögðum við mistökum sem urðu í og eftir fæðingu dóttur hennar í janúar 2011. Þar kemur einnig fram af hverju hún ákvað að skrifa opið bréf. Hún segir:

Mæðgurnar í náttúru Íslands sumarið 2020
Hlédís og Sveindís á skrifstofunni í ágúst 2020, þáttagerð fyrir N4.

„Ég hef engan sérstakan áhuga á að kæra einstaka starfsmann til lögreglu fyrir afglöp í starfi né þann heilbrigðisstarfsmann sem falsaði skýrsluna. Mig langar til að kerfið í heild breytist og hvernig við tökum á alvarlegum atvikum innan heilbrigðiskerfisins.“

„Skjalafals og þöggun innan heilbrigðiskerfis er ekki einkamál, þetta varðar okkur öll.“

Hlédis hefur skrifað nokkrar greinar og komið fram í viðtölum um málið á þessum níu árum sem liðin eru frá því atvikið átti sér stað við fæðingu Sveindísar litlu. Hún segir frá atburðinum og baráttu sinni í lýsandi grein þann 20. ágúst 2016⁠, fyrir fjórum árum.


Sveindís, fjörkálfurinn og náttúrubarnið hennar Hlédísar, hlaut heilaskaða. Líf þeirra mæðgna hefur því einkennst af vonum og vonbrigðum eftir því sem afleiðingar skaðans hafa komið fram. Slíkt er mikil áskorun fyrir unga einstæða móður, sem greinilega er ekki einstæð þannig lagað séð, því þétt fjölskyldu- og vinanet umvefur þær báðar. Hún horfir hugrökk í augu óttans þegar afleiðingarnar hafa sett allt lífið úr skorðum á sama tíma og hún berst fyrir réttlæti, fyrir hönd dóttur sinnar og okkar allra.

Eins og svo margir hafa upplifað í sambærilegum aðstæðum tekur þögnin og vandræðagangurinn stóra króka, svo stóra að líklegasti lendingarstaðurinn er úti í móa.

Hlédís er frumkvöðull og lætur ekki setja sér fastar skorður þegar kemur að viðbrögðum við alvarlegum atvikum. Viðhorf hennar einkennist af frelsi til að gera og læra af mistökum.

Pistlar hennar skera sig úr þegar kemur að því að veita þagnarmúrnum í heilbrigðiskerfinu læknandi meðferð. En íslenski þagnarmúrinn vill greinilega ekki læknast, ekki einu sinni þegar vísað er í hugrekki, auðmýkt, fræðigreinar og bækur.


Í opna bréfinu ávarpar hún þögnina og segir hvernig hún ætlar að túlka hana á jákvæðan hátt í stað þess að láta hana særa sig. Hlédís segist túlka þögnina sem samþykki á því sem hún telur að skorti á úrvinnslu málsins. Hún ákveður að túlka þögnina í stað þess að láta þögnina ákveða skilaboðin fyrir sig. Það sem skortir á að ljúka málinu er viðurkenning á því að starfsmenn og stjórnendur hafi vísvitandi falsað og breytt sjúkraskránni sér í hag. Hlédís skrifar:

„Að öðrum kosti óska ég eftir því að verða kærð fyrir meiðyrði. Þannig getur rannsókn á skjalafalsinu haldið áfram. Verði ég hvorki kærð né beðin afsökunar lít ég svo á að við séum öll sammála um að skjalafals hafi átt sér stað en yfirmenn Heilbrigðisstofnunar Vesturlands Akranesi hafi enn ekki það hugrekki sem til þarf til að bregðast heiðarlega við og breyta kerfinu til hins betra.“

Þögnin hefur ekki svarað og þar með hefur hún tjáð sig á þeim forsendum sem henni voru gefnar.


Svona túlkun ættu fleiri að taka upp í stað þess að láta þögnina ráða tilfinningum og líðan í kjölfar atvika í heilbrigðisþjónustunni. Þar með missir múrinn vald sitt.


Þann 20. febrúar 2013 þótti landlækni ástæða til að senda frá sér yfirlýsingu eftir að Kastljós fjallaði um mál Hlédísar. Þar er henni hrósað fyrir framlag sitt til rannsóknar málsins og landlæknir skrifar:

„Hlédísi var kunnugt um málsmeðferð embættisins og lagði sig fram um að aðstoða það við rannsókn þess. Hún miðaði að því að upplýsa málið og leitast við að koma í veg fyrir að slík atvik endurtaki sig.“

Er ekki komin tími til að heilbrigðistarfsmenn, stjórnendur og embættismenn dragi fram hugrekkið og treysti á þetta viðhorf þolenda mistaka með því að glæða með sér auðmýkt.


Ef reynslusögurnar á þessu vefsetri eru lesnar þá er þetta undantekningalaust viðhorf þeirra sem segja frá. Það er bersýnilega til grundvöllur fyrir samvinnu milli sjúklinga og fagfólks í að koma í veg fyrir mistökin. Tökum mark á Hlédísi og vinnum heiðarlega að því að fyrirbyggja slysin og bæta vinnubrögðin þegar slysin verða. Mig langar líka til þess.

643 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page