top of page

Ummæli Lesenda

Alma Möller landlæknir 26.10.2021:

"Langar að láta þig vita að ég las bók þína Banvæn mistök …

Mér fannst bókin góð og einstaklega vel skrifuð.

Þú nærð svo vel að koma hugsunum og tilfinningum í orð og mikilvægt að fá þessa innsýn í líðan þolanda alvarlegs atviks.

Ég dáist líka að hve þú áttir fallegt líf með Jóel þennan allt of stutta tíma og hvernig þú heldur minningu hans á lofti."

***

Mörður Árnason skrifar 22. febrúar 2021:

"Og þótti þetta strax alveg einstakt verk.

Bókin fjallar auðvitað um mistök í heilbrigðiskerfinu, og þótt ég hafi ekki forsendur til að vera eð neinskonar umsögn eða álit um þau mistök og málið sem kemur í kjölfarið stendur lesandinn stundum á öndinni yfir þessu ferli og hrífst með sögumanninum eins og í spennusögu – það er andóf og tregða og stundum nánast undanfærslur og bellibrögð, þótt ekki séu allir seldir undir sömu sök.

Í þessu er það auðvitað mikill kostur við höfundinn að hann þekkir heilbrigðisþjónustuna sem starfsmaður – hjúkrunarfræðingur – og  hefur þess vegna forsendur til að ganga lengra en venjulegur sjúklingur eða aðstandandi við að fá svör við spurningunum sem alstaðar vakna, og leita uppi þá sem bera ábyrgðina og eiga að annast eftirlitið, fyrir hönd skjólstæðinganna og alls almennings sem á stofnanirnar – og auðvitað allra heilbrigðisstarfsmanna líka.

Kaflarnir um andlát Jóels Gauts eru erfiðir að lesa en þar er aldrei lagt of mikið á tilfinningarnar – þetta verður aldrei tilfinningasamt eða væmið – heldur fer saman athugandinn, sögumaðurinn með sína hjúkrunarþekkingu, og móðirin – sem berst fyrir lífi barnsins síns – og fyrir utan heilbrigðisstarfsmenn, misánægjulega lækna og hjúkrunarfólk, kynnumst við líka nánustu aðstandendum, svo sem hetjunni bróður Jóels, og hjónabandinu, sem að lokum lætur undan síga fyrir atburðarásinni og harminum.

Mér finnst líka vel sögð sagan af missi móðurinnar og af því hvernig hún nær að halda sér á floti – ekki síst með því að reka sitt mál í kerfinu – og ná að lokum árangri, fyrir sjálfa sig og aðra. Mér þótti merkilegt að lesa um mál annarra sjúklinga og aðstandenda sem höfðu orðið fyrir svipuðum mistökum, og sumir þeirra komust mun skemur á veg en Auðbjörgu tókst.

Síðasti kaflinn hefst með orðunum: Heiðarleiki, lækning og von – og höfundurinn hefur ýmislegt að segja okkur sem stöndum eða gætum staðið í svipuðum sporum – ekki einungis vegna mistaka við greiningu og meðferð í heilbrigðisstofnunum, heldur líka vegna mótlætis af ýmsu öðru tagi.

Að lokum þakka ég Auðbjörgu kærlega fyrir þetta verk – og ætla að vera svo djarfur að segja að þessi bók heiðri svo sannarlega minningu litla drengsins sem hún missti fyrir réttum tuttugu árum."

 

***

Bergþóra Birnudóttir skrifar 15. júlí 2020:

„Ef ég hefði verið búin að lesa bókina þína á þessum degi hefði höggið ekki orðið eins mikið...því það hefur fært mér ákveðna ró til dæmis að lesa um mistök, hve erfitt sé að viðurkenna mistök og erfiðara þegar fram líða stundir því þá þarftu að útskýra af hverju þú komst ekki hreint og beint fram strax í byrjun til að þjáningar þess sem á í hlut yrðu ekki eins miklar.

… og að hún verði skyldulesning í til dæmis siðfræði í hjúkrunarnáminu og læknanáminu. Og í öllum heilbrigðisstéttum þar sem mistök geta átt sér stað, sem er jú ÞÁ ÖLL SÚ ÞJÓNUSTA SEM TIL ER.

Þú nærð að draga fram svo vel að þetta er ekki HATURSSTRÍÐ, þín barátta, heldur þörfin fyrir að gefa lífi og dauða Jóels þíns gildi. Það er svo fallegt.“

 

***

Árni H. Kristjánsson skrifar 7. janúar 2021:

"Ég var að ljúka við lestur hinnar frábæru bókar þinnar. Þetta var oft átakanlegt frásögn en það er einnig fegurð í ástinni sem skín gegnum skrifin og leiðir af sér hugrekki og baráttuþrek. Útgáfa bókarinnar var þarft verk og það mun án nokkurs vafa skila sér öðrum til heilla.“

***

​Áslaug Björgvinsdóttir 3. júlí 2021

Bókin er átakanleg lýsing á vanrækslu, skorti á hlustun, þöggun, sorg, valdamisræmi fólks gagnvart kerfinu og alvarlegum afleiðingum þess fyrir fólk sem verður fyrir tjóni vegna mistaka/brota í kerfunum okkar, sem er jú ætlað að tryggja velferð okkar og öryggi.

Bók Auðbjargar er mikilvæg lesning og ætti að vera skyldulesning allra sem sinna opinberri þjónustu og stjórnsýslu. M.a. ætti að kenna hana í læknadeild, lagadeildunum, ráðherraskólanum og dómaraskólanum, ef hann væri til.

Auðbjörg á heiður skilinn fyrir þessa bók þar sem hún af miklu hugrekki og einlægni bæði gefur okkur eigin sögu en líka rannsóknir og upplýsingar hvernig betur má standa að málum sem þessum eins og m.a. gert er í Noregi og gerir grein fyrir. Með þessari bók gefur Auðbjörg okkur og samfélagi okkar mikilvæga gagnrýni sem vert er að hlusta á og læra af.

 

Hlusta á upplestur úr bók 

Örnámskeið byggð á bók 

banvaen_mistok_kapa_19nov.png
bottom of page