top of page

Fyrirbyggjum skaðlega heilbrigðisþjónustu

Viljum við bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu sem völ er á? Getum við lært að taka þátt í þjónustunni sem við fáum og komið þannig í veg fyrir alvarleg atvik? Ég segi hiklaust já við því en við verðum þá að kynna okkur hlutina og læra hvernig við förum að því. Dæmin eru mörg til að læra af og hér eru tvö fyrir þá sem vilja kynna sér þau.


Dómar í málum sem tengjast heilbrigðisþjónustu, þ.e. skaðlegri þjónustu eru lærdómsríkir. Ekki síst fyrir þær sakir hve langan tíma tekur að fá niðurstöðu í mál sem þurfa ekki endilega að fara til dómstóla. Skaðleg viðbrögð við alvarlegum atvikum  gera það að verkum að reiðin knýr fólk áfram í að ná fram réttlæti og sanngirni. Við gerum okkur fulla grein fyrir að þetta eru erfið mál að takast á við fyrir alla aðila. Þess vegna er þess virði að læra af því sem aðrir ganga í gegnum í þessum efnum.


Nýverið féllu tveir dómar með stuttu millibili í Héraðsdómi Reykjavíkur. Báðir gegn LSH og báðir um skaðabætur eftir líkamstjón við greiningu og meðferð.


Fyrri dómurinn féll 28. maí 2024 vegna atviks sem varð í ágúst 2013 sem þýðir 11 ára barátta sjúklingsins fyrir jákvæðri niðurstöðu. Dómurinn var eingöngu staðfestingu á skaðabótarétti, síðan á eftir að semja um bæturnar sem gæti tekið 4-6 ár fyrir dómstólum til viðbótar. Svona mikil tregða mætir sjúklingum eftir alvarlegan skaða. Talið var að sjúklingur hefði ekki notið bestu mögulegrar meðferðar sem völ var á og hlaut tjón af sem hefði mátt koma í veg fyrir. Flókin lesning en þess virði að kynna sér sérstaklega fyrir sjúklinga sem fara í aðgerð á meltingarfærum.


Seinni dómurinn féll 10. júní 2024 vegna atvika í september 2016. Hér er löng og flókin saga um rangar greiningar á bráðamóttöku. Saga sem er þess virði að lesa og læra af. Kona sem barðist í átta ár og fær ekki hærri bætur en Sjúkratryggingar Íslands voru búnar að greiða (hámarksbætur).


Embætti landlæknis á að tryggja að mistökin endurtaki sig ekki en hvorugt þessara mála virðast hafa farið þá leið og kerfið lærir þá ekkert. Bæði þessi dæmi kostuðu sjúklinga og aðstandendur stórar fjárhæðir að ekki sé talað um þjáningarnar og tímann sem þau tóku. Við getum metið þessa baráttu mikils með því að lesa og læra af þeim. Bæði til þess að verja okkur sjálf, okkar nánustu og vera færari í að gera kröfur í kerfi sem staldrar ekki við nema við stígum á bremsuna. Kerfið snýst sífellt hraðar og fúsk á þá greiðan aðgang ef við gerum ekkert. Ef þú lendir í alvarlegu atviki blasir löng barátt við fyrir dómstólum? Hvað annað getum við gert?


Það þarf ekki að setjast á háskólabekk til að læra af mistökum annarra. Við getum lært af hvert öðru og byggt þannig upp betra heilbrigðiskerfi. Starfsmenn eru ekki færir um að gera það án okkar. Þeir þurfa vökul augu okkar með sér.





コメント


bottom of page