Hér á eftir er úr kafla 6:
Hjúkrunarfræðingarnir á bráðamóttöku koma reglulega, á um það bil 30–60 mínútna fresti. Á dagvaktinni eru tvær dökkhærðar konur. Ég man óljóst eftir þeim og einungis eitt nafn hjúkrunarfræðings kemur fram á skráningarblaðinu. Tekin eru lífsmörk og ég spurð hvernig gangi. Ég ítreka ótal sinnum áhyggjur mínar og sérstaklega í byrjun þegar Jóel braggast ekkert heldur versnar stöðugt. Ég vissi að það þurfti einungis að bíða 30 mínútur frá því að vökvagjöfin væri hafin, þá yrði hann hressari. En það gerist ekki núna. Við erum ekki þarna í fyrsta sinn með þessi vandamál. Nokkrum sinnum hringi ég bjöllu til að lýsa áhyggjum mínum en ekkert gerist. Ég skil ekki af hverju skilaboðin breyta engu um meðferðina.
Í starfi mínu sem hjúkrunarfræðingur (á þessari sömu stofnun) taldi ég það mitt hlutverk að tryggja öryggi sjúklingsins og lét lækni alltaf vita þegar ástand hans breyttist og þegar kom að áföngum í meðferðinni. Ef læknirinn virtist ekki heyra það nógu vel tók ég mér það vald að fara í yfirlækninn, jafnvel um miðja nótt. Ég gerði allt sem í mínu valdi stóð og meira til svo að sjúklingurinn fengi það sem hann þurfti á að halda. Það virtist ekki vera vinnuaðferð hjúkrunarfræðinganna á þessari deild.
Ég bíð og bíð eftir viðbrögðum sem aldrei koma. Mælingarnar gefa ekki til kynna að neitt óeðlilegt sé á seyði - nema meðvitund stráksins fer klárlega dvínandi. Meðvitundin var það eina sem breyttist hratt. Það eitt og sér er alveg nóg til að vekja grunsemdir um að eitthvað er bogið við greiningu og meðferð. Öndunin breytist hratt undir lokin, eins og ég bendi hjúkrunarfræðingnum á um sjöleytið. Viðvörunarbjöllurnar eru greinilega ekki í sambandi hjá honum heldur. Þetta er það sem gerir þögnina svona ærandi.
Meira úr kafla 6:
Bastían læknir veitti drengnum mínum ekki þá athygli sem ég vænti. Hann átti að sjá strax, án nokkurrar rannsóknar að drengurinn var í lífshættulegu ástandi. Ekki er nokkur leið að vekja Jóel. Ég ætti kannski að prófa að hringja í 112?
Þessi læknir var kuldalegur og eins og útbrunninn. Hann var í nánu sambandi við skjáinn sinn eins og Tetris-hjúkrunarfræðingurinn. Þetta samband hans við skjáinn var þó á faglegri nótum en hjúkrunarfræðingurinn. Engu að síður kom það í veg fyrir að hann tæki eftir ástandi drengsins. Er þetta kannski það sem átt er við þegar sagt er „Computer says no“? Það er óhuggulega sárt.
Comments