top of page

Auðveldasta leiðin er að hætta

Síðustu vikur hef ég verið að lesa yfir textann sem ég hyggst gefa út í bók, leiðrétta og laga eftir prófarkalesarann. Aftur og aftur sé ég allan sársaukann, svikin og lítilsvirðinguna sem ég

hef upplifði frá mistökunum sem leiddu Jóel minn til dauða. Atburðir sem brutu hjarta mitt í milljón mola. Ótal tilraunir til að rísa upp aftur misheppnuðust þegar kuldalegt viðmót og þögn mætti mér hjá vinnuvélum kerfisins. Að ekki sé nú talað um mínar eigin ásakanir um að þetta hafi verið mér að kenna. Skilaboð um að ég taki þetta allt of nærri mér eru hávær og einu skiljanlegu skilaboðin frá fagfólkinu. Textann þarf að aðlaga og taka biturleikann úr því hver vill lesa um það? Gott að finna að hann er ekki hluti af mér lengur og það fylgir því ánægja að mýkja textann.

Aftur og aftur horfi ég á textann og ímynda mér að þetta sé skáldskapur en ekki raunveruleiki. Það getur ekki verið að þetta hafi gerst? Þannig hef ég smátt og smátt fjarlægst reynsluna af því að missa dýrmætu perluna mína, aftur hætt að trúa sjálfri mér. Jóel er farin, það er óbærilegt, enn í dag getur það bara ekki verið. Svo vakna ég, held áfram af gömlum vana þar til sársaukinn hittir mig næst, held áfram að setja hann á blað. Lýsingarorðin breyta um stefnu eins og snjófljóð sem lendir á varnargarðinum ofan við byggðina. En spýjur skjótast yfir vegginn mér að óvörum. Ég má ekki missa stjórn á skapi mínu eins og gerðist daginn eftir mistökin. Varnargarðurinn hækkar í hvert sinn sem ég verð hissa því óttinn rekur öfluga verkfræðistofu, óttinn við álit og viðbrögð annarra hannar og byggir stærri varnargarð á einu augabragði. Það er auðvelt að hlíða honum en nú efast ég um vald hans og læt vera að halda mér í skefjum. Mér léttir skyndilega og ekkinn hjaðnar rólega. Dreg andann djúpt og sýg upp í nefið.

Ég velti því fyrir mér hvort minningin frá þessum degi þegar allir starfsmenn bráðamóttökunnar hunsuðu okkur, hunsuðu allar áhyggjur mínar með drenginn sem fjaraði út fyrir framan nefið á þeim hafi breytt mér til hins verra, til hins betra eða ekki breytt mér neitt. Ég skrifa og skrifa en í fjarska heyri ég rödd sem segir, það heyrir þetta enginn hvort eð er, til hvers þá að vera að tjá sig. Til hvers að finna allan þennan sársauka. Er ég að berjast án tilgangs eða er það nóg að ég tjái mig, nóg að ég sé svona, finni svona ofboðslega til. Skiptir það kannski meira máli en hvort fagfólk heyri? Það sem gerðist verður ekki aftur tekið. Hversu vont sem það er þá er ég svona og vil ekki vera annað. Ef enginn sársauki væri þá fyrst mætti ég efast, þá fyrst væri þetta ímyndun. Horfi ekki fram því né ætla ég að bregðast Jóel. Líf hans breytti mér til hins betra. Það er ástæða til að ég brosi á ný.

356 views0 comments
bottom of page