top of page

Banaslys á förnum vegi

Updated: Mar 5, 2020

Það var farið að rökkva í ágústbyrjun og fallegur næturhiminn blasti við okkur í vestri. Skyndilegur hvellur rauf kvöldkyrrðina. Ljósin fyrir aftan okkur hurfu augnabliki eftir að við mættum bíl. Við litum hvor á aðra og ræddum hvað mögulega hefði gerst. Við ákváðum að snúa við ef árekstur hefði orðið. Ég hjúkrunarfræðingur og hún fyrrverandi lögreglumaður - gæti verið heppilegt við þær aðstæður. Við snerum við og fljótt sáum við bíl þversum á veginum, illa útleikinn og fólk sem var að klöngrast út úr brennandi bíll sem hafði lent á hliðinni utan vegar.

Ég rauk út og beint að bílnum á veginum. Allt flaut í bensíni og ung kona við stýrið með litla meðvitund. Ég tók um axlirnar á henni og hún leit á mig vönkuð. Blóðslettur voru um allt en ég sá hvergi blæðingu. Skimaði yfir allt í bílnum en sá engan annan sem betur fer. Austan megin komu fleiri að. Það fólk staðfesti við mig að allir í hinum bílnum, erlendir ferðamenn, væru komnir út og búið væri að hringja á sjúkrabíl, hann kæmi eftir nokkrar mínútur. Þetta sagði ég ungu konunni sem var við það að missta meðvitund. Ég reyndi þá að opna bílinn, prófaði allar hurðirnar en ekkert gekk. Reyndi að leggja sætisbakið niður til að draga úr blóðþrýstingsfalli því að það var greinilega mikil blæðing í gangi. Það tókst ekki en í þann mund kom sjúkrabíllinn. Ég sleppti takinu á höfðinu á konunni um leið og þeir settu hálskragann á hana.

Við vinkonurnar héldum för okkar áfram eftir Suðurlandsveginum til Reykjavíkur. Við Selfoss stöðvaði lögreglan okkur og tók niður nöfn okkar og símanúmer. Daginn eftir var hringt og okkur sagt að konan hefði látist, ekkert hefði getað komið í veg fyrir það, jafnvel þótt slysið hefði gerst fyrir utan bráðadeildina. Okkur var boðin áfallahjálp. Ég fann hvernig reiðin gaus upp en ákvað að þiggja hjálpina þótt mér væri það þvert um geð. Þarna kviknaði reiðin gagnvart spítalanum út af þagnarinnar þegar sonur minn dó. Nú þegar ókunnug kona deyr, þá er sjálfsagt að bjóða mér áfallahjálp! Engu að síður fór ég og komst þá í kynni við sálfræðimeðferð sem kallast EMDR-meðferð*⁠1. Þar er beitt augnhreyfingum eða öðru áreiti til að fást við áföll út frá ákveðnum minningum. Þetta virkaði greinilega vel á mig og átti eftir að koma meira við sögu í bataferli mínu.

Þetta hörmulega banaslys vakti aftur í mér reiðina en varð, ef svo má segja mér til blessunar. Það er mikilvægt að hlúa að slösuðum hvar sem slysin verða, líka ef þau verða inni á sjúkrahúsi. Við verðum að horfast í augu við að slysin gerast allstaðar og engin er svo fullkominn að gera aldrei mistök.


1 Skammstöfunin EMDR er ensk og stendur fyrir Eye Movement Desensitization and Reprocessing (sjá nánar t.d. á slóðinni https://emdr.is/)

77 views0 comments
bottom of page