top of page

Hvenær verður of seint að hlusta?

Á hverjum degi óska ég þess að ég gæti knúsað Jóel son minn. Sama segir Guðrún Erla um dóttur sína Unni Ýr og Nói Hrafn gleymist aldrei. Á hverjum degi óskar Bergþóra og Eydís Eyjólfsdóttir þess að þær gætu leikið við börn sín án óbærilegra verkja, gengið um óstuddar og notið þess að hreyfa sig eins og þær gerðu áður. Þetta eru örfá dæmi um frásagnir í fjölmiðlum síðustu daga um afleiðingar alvarlegra atvika á heilbrigðisstofnunum. Þemað hér er að ekki var hlustað á sínum tíma og því fór svona illa. Ég get fullyrt að svona liggur í málunum og ef það hefði verið tekið eðlilega við kvörtunum okkar og á þær hlustað værum við ekki að berskjalda okkur í fjölmiðlum. Þetta kemur fram af því að það var ekki hlustað. Og hvað gerist?


Allt ofangreint kallar læknir „duttlunga“ í hádegisfréttum Bylgjunnar fjórða apríl s.l. Tilefni viðtalsins var hjartnæmur pistill læknisins á Vísi.is um hættulegar árásir sjúklinga á fullkomið heilbrigðiskerfi. Málið stendur honum greinilega nærri því hann virðist vera að verja fjölskyldu sína gegn mikilli hættu. Konur í fæðingu fara ekki eftir verklagreglum segir hann og það er vandamálið (þær hafa reyndar ekki aðgang að þessum reglum). Formaður félags ljósmæðra tók í sama streng í viðtali 31. mars og telur farsælast að við treystum fagfólki. Sama segir yfirlæknir fæðingadeildar LSH í Kastljósi fyrsta apríl.


Ég hef læðst með veggjum síðustu 12 árin og gert margar tilraunir til samtala við þá sem fjalla um öryggi sjúklinga án þess að blanda fjölmiðlum í það. Til dæmis hef ég reynt að fá áheyrn fagráðs um öryggi sjúkling hjá Embætti landlæknis, hjá Starfhópi um alvarleg atvik í heilbrigðisþjónustu, ráðherra, landlækni og fleirum. Gögn um þessar tilraunir mínar lýsa algjörri útilokun á viðhorfi og reynslu þeirra sem verða fyrir alvarlegum atvikum. Algjör firring er til staðar. Eina ráðið við duttlungum okkar er að hunsa þá í von um að þetta líði hjá og við jöfnum okkur. Ég get auðveldlega opinberað svör embættismanna við þessum tilraunum mínum en ætla að gefa þeim tækifæri til að sýna áhuga. Það er sóun að veita ráð þegar ekki er leitað eftir því. Nú hefur heilbrigðisráðherra endurvakið umræddan starfshóp og notar til þess sömu uppskrift og áður, þar er enginn fulltrúi sjúklinga og hæpið gera sér vonir um aðra niðurstöðu en í dag er öllum augljós.

Er of seint að hlusta?

bottom of page