Ríkissjónvarpið sýndi þátt í apríl 2018, um sex ára dreng Guðjón Óla Jónsson sem varð fjölfatlaður eftir mistök á Barnaspítala Hringsins 2012. Hann var þá aðeins sex vikna gamall1. Fyrstu árin í lífi hans hafa því einkennst af baráttu foreldra hans fyrir réttlæti. Enn er ekki komin endanleg niðurstaða.
Þátturinn gefur góða innsýn í hvernig það er að standa á rétti sínum gagnvart stofnun sem maður verður að leggja traust sitt á því það er engin annar aðili sem sinnir sérhæfðir læknisþjónustu við börn á Íslandi. Að standa í málaferlum við þá stofnun sem þarf að annast um barnið á sama tíma er ekki einfalt mál.
Það glittir samt örlítið í breytingar á öryggismenningunni samkvæmt sjónvarpsþættinum því þar kemur fram að prestur spítalans stendur dyggileg með foreldrunum og ver þau fyrir ofríki starfsmanna. Foreldrarnir sýndu einstaka lagni í að setja heilbrigðisstarfsmönnum mörk. Við eygjum breytingar ef við stöndum á okkar að ekki sé talað um ef við fáum til þess hjálp og stuðning. Sá stuðningur þarf að vera öruggur og auðvelt að nálgast þegar á þarf að halda.
Því miður er tilfinning margra að heilbrigðisstarfsmenn og stjórnendur á heilbrigðisstofnunum þjappi sér saman með hagsmuni sína og stofnunarinnar fremur en heilsu og velferð sjúklingsins. Hvað þarf að gerast til að slík tilfinning víki og traust skapist í staðinn?
Comments