top of page

Öryggið og Covid

Updated: Nov 16, 2022

Á tímum faraldurs er gott að hugleiða sitt eigið öryggi og ekki síst þeirra sem veikastir eru.

Eitt af gæða- og öryggismarkmiðum allra heilbrigðisstofnana er að koma í veg fyrir sýkingar. Til þess að ná því markmiði er gríðarleg áhersla lögð á hreinlæti og þar er handþvottur mikilvægastur. Nú hafa gengið myndbönd á samfélagsmiðlum um hvernig eigi að þvo sér um hendur til þess að minnka líkur á smiti. Við héldum að við kynnum þetta enda dagleg athöfn okkar flestra en þessi aðferð er rannsökuð og viðurkennd sem fyrirbyggjandi gegn smitsjúkdómum.

Starfsmönnum heilbrigðisstofnana er sérstaklega kennd þessi aðferð í þeim tilgangi að tryggja öryggi sjúklinga. Sjúklingar hafa einnig aðgang að þessari þekkingu og taka þátt í örygginu með því að nota aðferðina. Nú er tækifæri til að læra þetta almennilega og vera öðrum til fyrirmyndar. Vera jafnvel heilbrigðisstarfsmönnum til fyrirmyndar í að tryggja öryggi sjúklinga. Sýnum að við gerum kröfur og erum samkvæm sjálfum okkur.

Faraldurinn vegna Covid-19 veirunnar er svo skæður að hættustigi almannavarna á Íslandi var lýst yfir 28. febrúar og ríkislögreglustjóri stýrir aðgerðum og heldur utanum málin ásamt landlækni og sóttvarnarlækni. Hér er um hagsmuni þjóðarinnar í heild að ræða. þetta er ekki venjuleg spítalasýking. Við verðum öll að taka þátt í því að verjast og sérstaklega að verja þá sem veikastir eru. Við verðum að sameinast um að verja þá sem líklegastir eru til að hljóta skaða af því að smitast. Dánartíðnin er nokkuð sem við verðum að horfast í augu við. Þetta er einfaldlega kjarninn í öryggismenningunni. Nýtum tækifærið núna og mótum öryggismenninguna, sýnum ótrvíræðan áhuga á lífi og heilsu annarra með því að þvo okkur um hendur og fara eftir tilmælum yfirvalda.

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn tjáði sig um Ís­lendinga sem mætt hafi í vinnuna að nýju strax eftir að hafa ferðast heim af á­hættu­svæðum. Furðaði hann sig sömu­leiðis á hegðun þeirra ein­stak­linga, sem sumir hverjir hafi gortað sig af því að hafa sloppið við sótt­kví. „Mér finnst þetta alveg stór­undar­legt og skil ekki hvernig fólki dettur í hug að gera þetta. Það er ekki bara að setja sjálft sig í hættu. Ef þú ert að um­gangast til dæmis eldra fólk, veikt fólk og börn með bælt ó­næmis­kerfi og annað. Þetta er full­komið á­byrgðar­leysi,“ sagði Víðir Reynisson í Kastljósi 3. mars sl. Ég tek undir þetta með honum því við eigum að hafa lítið umburðarlyndi þegar öryggi okkar er ógnað. Við verðum að gera eins vel og við getum, öll sem eitt. Það má líka þvo af sér samviskubit og eftirsjá en best er að breyta hegðun sinni og standa þannig vörð um öryggi okkar allra.

Í gömlu fréttablaði má lesa skemmtilega grein um vísindarannsókn um handþvott og samviskubit. Sálfræðingar við Michegan-háskólann í Bandaríkjunum fundu það út að hægt er að þvo burt slæm áhrif samviskubits.

Í Mattheusarguðspjalli er sagt frá því að Pílatus þvoði hendur sínar af ákvörðuninni um að láta lífláta Jesú, þetta gerði hann frammi fyrir öllum. Þvotturinn gerði samvisku hans hreina af þessari ákvörðun.

Handþvottur á vel við hvort sem það er til að hefta útbreiðslu sjúkdómsins eða draga úr áhrifum samviskubits.

84 views0 comments
bottom of page