top of page

Jón Valgeir lét lífið eftir alvarleg mistök

Updated: Feb 19, 2021

Systkinin Berglind og Björn misstu föður sinn Jón Valgeir aðeins 55 ára gamlan eftir stutt veikindi en andlát hans var óvænt og stafaði af vítaverðu gáleysi starfsmanna á Landspítalanum árið 2014. Þetta var staðfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 23. september 2020. Þarna liðu sex dýrmæt ár í óþarfa baráttu eftir alvarlegt áfall sem systkinin hefðu kannski viljað nota á annan hátt til að heiðra minningu föður síns.

Þau voru bæði á þrítugsaldri er þau misstu föður sinn sem var í fullu fjöri áður en hann lagðist inn á Landspítalann vegna veikinda. Sex ára dótturdóttir hans missti góðan og lífsglaðan afa sinn.

Jón Valgeir þurfti að fara í aðgerð á meltingarfærum og allt gekk vel fyrstu dagana á eftir. Síðan fór ástand hans versnandi án þess að það vekti nægjanleg viðbrögð starfsmanna á vakt. Ítrekað reyndi unnusta hans að vekja máls á þessu við hjúkrunarfræðinga deildarinnar en allt kom fyrir ekki fyrr en hann fór í hjartastopp. Hann vaknaði ekki aftur eftir það og lést á gjörgæsludeild fimm dögum síðar.


Í dómnum kemur fram að stjórnendur spítalans hafi beðist afsökunar, framkvæmt rótargreiningu og að systkinin hafi fengið afrit af niðurstöðum hennar. Þrátt fyrir viðurkenningu og afsökunarbeiðni þótti spítalanum ekki rétt að börn Jóns fengju miskabætur eins og lög kveða á um. Á það að vera sjálfsagt að valda stórfelldum skaða af gáleysi án þess að þurfa að bæta fyrir það með einhverjum hætti? Til hvers eru þá þessi lög um sjúklingatryggingar ef stærsta heilbrigðisstofnunin telur sig ekki þurfa að fara eftir þeim?

Jafnframt kom fram í málflutningi LSH að vísa ætti málinu frá sökum skorts á gögnum, gögnum sem systkinunum hafði verið neitað um og Embætti landlæknis staðfest þá synjun. Í ofanálag hélt lögmaður spítalans því fram að börnin ættu að sanna miska með því að leggja fram einmitt þessi gögn. Það fer eiginlega hrollur um mann að lesa um framgöngu spítalans gagnvart börnum Jóns fyrir dómstólum.


Jón Valgeir missir af því að fá að horfa á börnin sín í nýjum hlutverkum í lífinu, fær ekki að fylgjast með barnabörnunum vaxa og dafna, fær ekki að vera sá afi sem hann vildi vera. Fær ekki að láta drauma sína rætast á síðari hluta ævinnar.


Vissulega munu góðar minningar vera börnum hans efst í huga í framtíðinni þrátt fyrir þessa erfiðu reynslu en það er listgrein sorgarinnar sem færir þeim sáttina með því að tengjast á nýjan hátt með minningunum.

Vonin er til staðar um að lærdómur og breytingar verði til þess að forða öðrum frá þessum þjáningum þótt engin áþreifanleg merki sjáist um að svo sé.

Recent Posts

See All

コメント


コメント機能がオフになっています。
bottom of page